Sirrý.is

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

,,Að kynna sig af öryggi."Daður og áhugi - Copy

Það sýnir sjálfstraust og áhuga á öðru fólki að kynna sig með nafni og spyrja aðra að nafni. Og svo þarf maður að venja sig á að taka eftir nafninu og muna það.
,,You want to be where you can see the trouble are all the same. You want to bee where everybody knows your name". Þannig var sungið í upphafsstefi sjónvarpsþáttarins Cheers eða Staupasteins hér um árið. Og þetta eru orð að sönnu. Það er gaman að vera í samfélagi þar sem fólk þekkir mann með nafni. Og það er sterkt að muna nafn fólks.

,,Ávarpaðu fólk með nafni. Það hljómar eins og tónlist í eyrum þess" sagði bandarískur samskiptaráðgjafi. Og þetta kunna Bandaríkjamenn. Það er innbyggt í menningu þeirra að fólk tekur eftir nöfnum samferðamanna og leggur þau á minnið. Fólk lærir fljótt erfiðustu nöfn í fjölþjóðasamfélaginu Bandaríkjunum.

En hvernig er þetta hér hjá okkur? Oft þegar ég hringi í fyrirtæki svarar rödd sem kynnir sig með nafni í svo miklu hasti að aðeins tveir, þrír bókstafir heyrast úr nafninu. ,,Góðan dag. ...nar heiti ég. Get ég aðstoðað?"
Og Íslendingar geta verið saman á sundlaugarbakka eða á sólarströnd í hálfan mánuð og átt skemmtileg samskipti á sundfötunum með sangría í hönd. En það gleymdist í upphafi að kynna sig með nafni og það verður svo erfitt eftir hálfan mánuð ,,á trúnó" að spyrja: ,,Hvað heitirðu?".
Margir segja nafnið sitt mjög hratt og óskýrt. Kannski vegna þess að þeir hafa sagt það svo oft, hafa borið nafnið frá fæðingu og þetta er svo sjálfsagt. En það þarf að taka utan um orðið og láta nafnið heyrast. ,,Sæl. Ég heiti Sigríður. Hvað heitir þú?"
Og þetta heyrist greinilegar en ,,Sæl. Sigríður heiti ég." Áherslan verður þarna á seinni hlutann og nafnið hverfur.

Og ef einhverjum finnst þetta léttvægt ætti hann að fara til Asíu. Í viðskiptalífi og mannlegum samskiptum almennt í landi eins og t.d. Malasíu er lykilatriði að sýna fólki þá virðingu að muna nafnið. Og menn afhenda nafnspjaldið sitt með báðum höndum og af virðuleik. Það þykir við hæfi að taka á móti nafnspjaldinu með báðum höndum. Horfast í augu, skoða nafnspjaldið og horfast aftur í augu. Og muna svo nafnið og titil viðkomandi.
Við þurfum ekkert að hafa þennan háttinn á – en við þurfum að kynna okkur með nafni og láta það heyrast.

Kveðja,
Sigríður Arnardóttir
Fjölmiðlakona og Ráðgjafi í almannatengslum
www.sirry.is

 
ÞÚ ERT HÉR: Home Pistlar Kynna sig af öryggi